Engin fýluferð þrátt fyrir tapleik

Stokkseyringar í góðum gír á Ísafirði eftir leik í kvöld. Ljósmynd/Stokkseyri

Stokkseyringar héldu vestur á Ísafjörð í dag og mættu þar Herði í 5. deild karla í knattspyrnu. Lokatölur leiksins urðu 4-0 en staðan var 2-0 í hálfleik.

Þrátt fyrir tapið var hugur í Stokkseyringum eftir þessa frægðarför enda stóðu í stafni hjá liðinu gömlu brýnin þeir Guðmundur Garðar Sigfússon, Einar Ottó Antonsson og Arilíus Marteinsson. Magnað tríó. Guðmundur Garðar var að spila sinn 400. KSÍ leik og Einar Ottó spilaði sinn fyrsta leik fyrir Stokkseyri eftir langar og strangar samningaviðræður undanfarin fimm ár.

Í gær spiluðu Uppsveitamenn gegn Smára í sama riðli í 5. deildinni. Smári sigraði 8-0 en staðan var 5-0 í hálfleik.

Staðan í riðlinum er þannig að Stokkseyri og Uppsveitir eru í 6.-7. sæti með 10 stig þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni.

Fyrri greinEnn vantar mörkin hjá Selfyssingum
Næsta greinMagnús Kjartan stýrir brekkusöngnum í fjórða sinn