Stokkseyri lauk keppnistímabilinu í 5. deild karla í knattspyrnu í dag með því að taka á móti toppliði Mídasar í hörkuleik á Stokkseyrarvelli.
Stokkseyringar hafa teflt fram ýmsum markvörðum síðan Hlynur Kárason meiddist og þeir sönnuðu það í dag að það er engin markvarðarkrísa við ströndina þar sem Arilíus Marteinsson spilaði fyrsta klukkutímann milli stanganna áður en Valdimar Gylfason tók við hönskunum.
Arilíus átti góðan leik en hann gat ekki komið í veg fyrir tvö mörk gestanna á fyrsta hálftímanum. Sindri Þór Arnarson minnkaði svo muninn á 42. mínútu fyrir Stokkseyri og staðan var 1-2 í hálfleik.
Stokkseyringar voru ferskir í upphafi seinni hálfleiks og Sindri Þór jafnaði strax eftir tvær mínútur. Gestirnir voru hins vegar sterkari síðasta hálftímann, þeir skoruðu tvívegis með stuttu millibili um miðjan seinni hálfleikinn en Hafþór Berg Ríkharðsson minnkaði muninn í 3-4 þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir. Mídas átti svo lokaorðið þegar þrjár mínútur voru eftir og lokatölur urðu 3-5.
Með sigrinum tryggði Mídas sér toppsætið í riðlinum og þeir fara í úrslitakeppnina ásamt Smára, Álftanesi og Höfnum. Stokkseyri lauk leik í 7. sæti með 14 stig.