Hamar fékk skell á heimavelli í kvöld þegar liðið tók á móti KR í Domino's-deild kvenna í körfubolta. Lokatölur voru 71-96.
Hamar byrjaði afleitlega í leiknum og KR komst í 7-23. Staðan var 13-24 að loknum 1. leikhluta. Annar leikhluti var mun jafnari og í hálfleik var enn ellefu stiga munur á liðunum, 36-47.
KR gerði svo endanlega út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks en gestirnir hófu 3. leikhluta á 2-17 áhlaupi. Þá var staðan orðin 38-64 og ekki útlit fyrir að Hamarskonur kæmu til baka.
Di’Amber Johnson skoraði 21 stig fyrir Hamar, Íris Ásgeirsdóttir 11, Sóley Guðgeirsdóttir og Fanney Lind Guðmundsdóttir 9, Jenný Harðardóttir 8, Rannveig Reynisdóttir 5 og þær Kristrún Rut Antonsdóttir og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoruðu báðar 4 stig.