Fjölmennasta greinin á Unglingalandsmóti UMFÍ sem hefst á Selfossi á morgun eru kökuskreytingar. Yfir 210 þáttakendur eru skráðir til leiks í þessa grein.
Að sögn Odds Sigurðarsonar, hjá League Manager, sem heldur utan um greinaskipulag mótsins er þó ekki útlit fyrir að UMFÍ og HSK verði uppiskroppa með tertubotna, því nóg sé til af þeim á Selfossi.
Strandblakið og pílukastið vinsælt
„Strandblakið er löngu sprungið og yfir 200 þátttakendur í þeirri grein. Þetta er miklu meiri fjöldi en við áttum von á. En við erum samt að bæta við liðum því við viljum að allir geta verið með og tekið þátt. Það er ungmennafélagsandinn í hnotskurn,“ segir Oddur. Svipaða sögu er líka að segja af pílukasti, sem er gríðarlega vinsæl keppnisgrein á mótinu.
Skráningarfrestur á mótið var framlengdur til hádegis í dag og nú er allt að smella saman á Selfossi. Móttaka mótsins opnar í Fjölbrautaskóla Suðurlands klukkan 15 í dag og verður hún opin fram til klukkan 23 í kvöld. Fólk er þegar farið að koma streyma á Selfoss og í kvöld verða fyrstu tónleikarnir í risastóru samkomutjaldi á tjaldsvæði mótsgesta. Keppni hefst svo í fyrramálið klukkan 10 með golfi, knattspyrnu, körfubolta og strandblaki.