Ölfusingurinn Guðmundur Karl Guðmundsson lék mjög vel á miðjunni hjá Fjölni í kvöld. Hann skoraði eitt mark og fiskaði vítaspyrnu í 2-3 sigrinum á Selfossi.
„Þetta var bara algjörlega frábært að ná að landa sigri eftir að hafa gengið frekar brösuglega í seinni hálfleik. Við mættum vel stemmdir inn í leikinn og ætluðum að berjast eins og ljón í fyrri hálfleik og reyna að koma marki á þá snemma,” sagði Guðmundur Karl í samtali við sunnlenska.is.
Ætlunarverk Fjölnisliðsins gekk upp því þeir komust yfir strax á 10. mínútu og mínútu síðar skoraði Guðmundur Karl glæsilegt mark utan úr teig og kom Fjölni í 2-0. „Það var engu líkt að ná að skora þetta mark. Maður þekkir strákana í Selfossliðinu og fólkið í stúkunni og það var ekkert eins skemmtilegt og að ná að skora og fiska síðan víti,” sagði Guðmundur sem var einna sprækastur Fjölnismanna í fyrri hálfleik.
„Við hefðum ekki getað fengið betri byrjun á mótinu og þetta verður frábært Fjölnissumar,” sagði Ölfusingurinn hress í bragði áður en hann fór syngjandi inn í klefa með liðsfélögum sínum.