Enn eru laus örfá pláss í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ sem hefst á Selfossi á mánudag, þann 14. júlí. Skólinn er ætlaður börnum á aldrinum 11 til 18 ára.
Að sögn Fjólu Signýjar Hannesdóttur hefur skráning verið góð í skólann í ár, alls 35 krakkar skráðir, en enn eru þó nokkur pláss laus og hægt að skrá sig alveg til klukkan níu á mánudagsmorgun. Fjóla Signý og Ágústa Tryggvadóttir eru aðalumsjónarmenn skólans.
Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður starfræktur í fimmta sinn á HSK svæðinu og í ár er hann á Selfossi 14. – 18. júlí í samstarfi við Frjálsíþróttaráð HSK. Ungmennin koma saman á hádegi á mánudegi en skólanum lýkur á hádegi á föstudegi í sömu viku. Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum.
Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg það er til dæmis farið í sund, leiki, haldnar kvöldvökur, farið í bíó, tvær grillveislur, pizzuveisla og endar skólinn svo með móti. Ungmennin borga þátttökugjald 20.000 kr. en innifalið í því er kennsla, fæði og gisting.
Ungmennafélag Íslands hefur yfirumsjón með framkvæmd skólans og annast sameiginlega kynningu á starfseminni. Skólinn er í samvinnu við Frjálsíþróttasamband Íslands. Auk Fjólu Signýjar og Ágústu koma fleiri þjálfarar og aðstoðarmenn að skólanum en lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna.
Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Skólinn hefur fengið eindæmum góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku.
Skráningar fara fram á heimasíðu UMFÍ eða með því að senda tölvupóst beint á Fjólu Signý (fjolasigny@gmail.com) eða Ágústu (agustat@hotmail.com)