Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir varð í 14. sæti í 200 m skriðsundi á heimsmeistaramótinu í sundi í 50 m laug í Fukuoka í Japan í dag. Hún tvíbætti eigið Íslandsmet í greininni í dag.
Snæfríður byrjaði daginn á nýju Íslandsmeti og tryggði sér örugglega sæti í 16 manna úrslitum þar sem hún bætti tæplega tveggja mánaða eigið met um 77/100 úr sekúndu.
Hún gerði enn betur í undanúrslitasundinu þar sem hún synti frábært sund á tímanum 1:57,98 mín og bætti Íslandsmetið sitt aftur, nú um 16/100 hluta úr sekúndu.
Snæfríður kom mark í 8. sæti í sínum riðli og í 14. sæti í heildina og komst því miður ekki áfram í úrslitariðilinn.
Næst á dagskrá hjá Snæfríði Sól er 100 metra skriðsund næstkomandi fimmtudag og þá syndir Anton Sveinn Mckee, sem ættaður er frá Selfossi, 200 metra bringusund.