Gnúpverjar unnu í kvöld magnaðan sigur á Fjölni í 1. deild karla í körfubolta á heimavelli í Kórnum í Kópavogi. Lokatölur urðu 84-80.
Fjölnismenn byrjuðu mun betur í leiknum en Gnúpverjar söxuðu á forskot þeirra í 2. leikhluta og staðan var 42-44 í leikhléi. Gnúpverjar lögðu svo grunninn að sigrinum með góðum 3. leikhluta en í þeim fjórða þjörmuðu Fjölnismenn að ungmennafélögunum úr Gnúpverjahreppi. Gnúpverjar stóðust áhlaupið og sigruðu með fjögurra stiga mun.
Gnúpverjar hafa nú 16 stig í 7. sæti deildarinnar.
Tölfræði Gnúpverja: Everage Richardson 33/11 fráköst/8 stoðsendingar, Gabríel Möller 13/7 fráköst, Atli Örn Gunnarsson 11/8 fráköst, Leifur Steinn Arnason 9, Hraunar Karl Guðmundsson 9, Tómas Steindórsson 4/16 fráköst, Bjarni Gunnarsson 3, Garðar Bjarnason 2/4 fráköst.