Selfoss tapaði 2-1 þegar liðið heimsótti Gróttu á Seltjarnarnesið í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Enn einn leikinn sýndu Selfyssingar góð tilþrif en eins og oft áður í sumar var uppskeran við mark andstæðinganna ekki nógu góð og niðurstaðan svekkjandi tap.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og fékk fín færi á upphafsmínútunum en var refsað með marki frá Gróttu á 34. mínútu. Í kjölfarið riðlaðist leikur Selfyssinga og þeir voru fegnir þegar flautað var til hálfleiks og boðið upp á tebolla.
Hafi menn ætlað að mæta einbeittir og ákveðnir til leiks í seinni hálfleiknum voru þau plön farin út um gluggann þremur mínútum síðar þegar Grótta komst í 2-0 með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu.
Selfyssingum gekk illa að skapa sér eitthvað framan af seinni hálfleiknum en á 61. mínútu fengu þeir dæmda vítaspyrnu og úr henni skoraði Kenan Turudija af öryggi. Það var líf og fjör síðasta hálftímann, lítið um færi og Grótta líklegri til að skora. Selfyssingar eyddu talsverðri orku í dómarann sem átti heldur betur slakan dag en það breytir því ekki að mörk þeirra vínrauðu urðu ekki fleiri og úrslitin á Nesinu 2-1.
Selfoss er áfram í 10. sæti deildarinnar með 12 stig en Grótta er komin upp í 6. sætið með 20 stig.