Styrmir Dan Steinunnarson, Þór Þorlákshöfn, sigraði í hástökki á Áramóti Fjölnis í kvöld og tvíbætti Íslandsmetið sitt sem hann setti á dögunum.
Styrmir stökk fyrst 1,94 m og stóð það met í nokkrar mínútur, allt þar til hann flaug yfir 1,98 og setti enn á ný glæsilegt Íslandsmeti í hástökki innanhúss í flokki 15 ára pilta.
Hann á því ásamt tveimur öðrum besta árangur allra íslenskra karlmanna í hástökki innanhúss á árinu og er það magnað afrek hjá þessum unga frjálsíþróttamanni.
Styrmir er með fjórða besta árangurinn utanhúss á árinu en hann stökk þá 1,96 metra og setti Íslandsmet utanhúss í sínum aldursflokki. Hæsta stökk ársins utanhúss er 2,01 m.
Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð, keppti einnig á mótinu í kvöld og sigraði örugglega í 800 m hlaupi á 1:52,96 mín.
Þá varð Eva Lind Elíasdóttir, Þór, þriðja í kúluvarpi kvenna, kastaði 11,66 m.