Knattspyrnufélag Árborgar tapaði fyrir Dalvík/Reyni á heimavelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 1-2.
Leikurinn var báðum liðum mikilvægur en Árborg er í næst neðsta sæti og Dalvík/Reynir í jöfnum pakka þar fyrir ofan.
Bæði lið áttu ágæt færi á upphafsmínútunum en Dalvíkingar komust yfir á 22. mínútu eftir hraða sókn og mistök í vörn Árborgar.
Eftir markið tók Árborg leikinn í sínar hendur og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Það kom á síðustu mínútu fyrri hálfleiks þegar Almir Cosic stangaði hornspyrnu frá Guðmundi Sigurðssyni í netið.
Staðan var 1-1 í hálfleik en Árborgarar voru sterkari á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Sigurmarkið kom þvert á gang leiksins og var virkilega ódýrt eftir skógarferð Steinars Stefánssonar í marki Árborgar.
Í stöðunni 1-2 voru Dalvíkingar mun líklegri og Árborgarar fengu ekki færi fyrr en undir lokin. Mörkin hefðu getað orðið fleiri því dómarinn neitaði báðum liðum um vítaspyrnu oftar en einu sinni en niðurstaðan var sterkur vinnusigur Dalvíkinga.
Nokkur skörð voru höggvin í raðir Árborgar í leiknum og léku tveir ungir leikmenn sinn fyrsta meistaraflokksleik í kvöld, þeir Ingvi Rafn Óskarson og Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, sem komu til liðsins að láni frá 2. flokki Selfoss í gær ásamt þremur öðrum leikmönnum.
Árborg er í 11. sæti deildarinnar með 6 stig og leikur næst á Húsavík, gegn Völsungi sem er í 10. sæti, á föstudaginn eftir verslunarmannahelgi.