Enn vantar mörkin hjá Selfyssingum

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Róðurinn þyngist enn hjá kvennaliði Selfoss í fallbaráttunni í 1. deildinni í knattspyrnu. Selfoss heimsótti ÍA í Akraneshöllina í kvöld.

Skagakonur voru ákveðnari í fyrri hálfleiknum og þær komust yfir skömmu fyrir leikhlé eftir skyndisókn og fyrirgjöf frá hægri.

Staðan var 1-0 í hálfleik og þær urðu raunar lokatölur leiksins. Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og sóttu stíft á köflum en tókst ekki að skapa sér nein afgerandi færi. Sóknarleikur liðsins hefur verið hausverkur síðustu vikur en liðið hefur aðeins skorað eitt mark í síðustu sjö leikjum.

Selfoss er áfram í fallsæti, þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni, með 10 stig en þar fyrir ofan eru Grindavík með 14 stig og HK með 17 stig.

Fyrri greinSjöunda tap Ægis í röð
Næsta greinEngin fýluferð þrátt fyrir tapleik