Viðar Örn Kjartansson kom inná á 68. mínútu þegar Ísland sigraði Tyrkland 2-0 í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, á Laugardalsvellinum í kvöld.
„Það var mjög erfitt að koma inn í þennan leik. Á meðan staðan var 2-0 þá áttu Tyrkirnir ennþá möguleika. Aðalmálið hjá okkur Birni [Bergmann] var að verjast, halda boltanum og fá aukaspyrnur og það gekk. Þeir náðu ekki að skapa mikið,“ sagði Viðar Örn í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við vorum að sækja á fáum mönnum og fengum ekki mörg færi, þannig að við höfðum ekki úr miklu að moða í framlínunni. Tyrkirnir voru ekki að skapa sér neitt heldur. Ef þeir hefðu náð að minnka muninn þá hefði þetta getað orðið erfitt.“
Viðar kom einnig inná í leiknum gegn Finnlandi á fimmtudagskvöldið en töluverð umræða skapaðist um það á samfélagsmiðlum hvort markavélin frá Selfossi hefði ekki átt að byrja þann leik.
„Ég er ánægður með að fá mínútur en auðvitað vill maður vera í byrjunarliðinu. Það er annað að byrja leiki heldur en að koma inná og reyna að koma sér í takt við leikinn. En ég er búinn að koma inná núna í tveimur leikjum í röð, báðir sigurleikir, ég hef kannski ekki verið að fá færi en ég er í boltanum og það er alltaf gaman að fá að spila,“ sagði Viðar og bætti við að sigurinn í kvöld hefði verið mjög öruggur.
„Við vorum að spila rosalega vel í fyrri hálfleik og í seinni hálfleiknum snerist þetta um að berjast og hleypa þeim ekki inn í leikinn.“
Eftir að hafa dvalið einn í Ísrael undanfarnar vikur heldur Viðar nú þangað aftur ásamt fjölskyldu sinni, unnustunni Thelmu Rán Óttarsdóttur og syni þeirra Henning Thor, en sá stutti hefur víða komið við í heiminum, aðeins fimm mánaða gamall.
„Fjölskyldan fer með mér á morgun, það verður yndislegt að fá þau þangað og mér hefur líkað ofsalega vel að vera þarna. En já, það er mikið flakk á syninum, hann er búinn að búa á Íslandi og í Svíþjóð og er „made in China“ og er núna að flytja til Ísrael. Ég verð að fara að kenna honum ensku svo að hann geti reddað sér.“