Eric Máni Guðmundsson, motocrossmaður úr Umf. Selfoss, var kjörinn íþróttamaður Hveragerðis 2023 en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Listasafni Árnesinga í gær.
Eric Máni, sem er 16 ára gamall, varð Íslandsmeistari í unglingaflokki í sumar en þetta er hans þriðji Íslandsmeistaratitill fimm ára keppnisferli. Hann vann allar keppnir sumarsins í unglingaflokknum. Eric Máni er í U21 landsliði Íslands í motocross.
Fimm aðrir íþróttamenn voru tilnefndir í kjörinu; Úlfur Þórhallsson badmintonmaður, Hafsteinn Valdimarsson blakmaður, Björn Ásgeir Ásgeirsson körfuknattleiksmaður, Brynjar Óðinn Atlason knattspyrnumaður og Anna Guðrún Halldórsdóttir lyftingakona.
Á athöfninni í gær voru einnig veittar viðurkenningar til þeirra sem hafa unnið Íslands- og bikarmeistaratitla á árinu auk þeirra sem hafa verið valdir í landslið og hlutu þrettán íþróttamenn slíka viðurkenningu.