Erlín bætti Íslandsmetið í hreystigreip

Erlín Katla á slánni í dag. Skjámynd/RÚV

Erlín Katla Hansdóttir úr Flóaskóla setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í hreystigreip í Skólahreysti í dag. Erlín hékk á slánni í 16:58 mínútur og bætti metið um tæpar tvær mínútur.

Fyrra metið var ekki orðið sólarhringsgamalt en í gærkvöldi sló Iðunn Embla Njálsdóttir úr Réttarholtsskóla eldra met þegar hún hékk í 15:02 mínútur. Eldra metið hafði staðið í fimm ár og var 12:40 mínútur. 

Skólahreystispekingar voru á því að met Iðunnar Emblu yrði ekki slegið í bráð en Erlín Katla var ekki á sama máli. Í viðtali á RÚV eftir keppnina sagði Erlín að árangur Iðunnar í gærkvöldi hefði aðeins gert hana ákveðnari í að ná metinu. „Mér er ógeðslega illt,“ sagði Erlín brosandi þegar hún var nýkomin af slánni. „Mig langaði svo að ná metinu, ég varð að ná því.“

Fyrir keppnina í dag hafði Erlín Katla sýnt að hún væri til alls líkleg en hún sigraði í hreystigreypinni á úrslitakvöldinu í fyrra, hékk í 8:52 mínútur sem þá var þriðji besti tími sem náðst hafði í greininni.

Ekki nóg með það að Erlín hafi slegið í gegn í dag heldur stóð Flóaskóli sig frábærlega í keppninni og sigraði sinn riðil með talsverðum yfirburðum og er því kominn í úrslit. Flóaskóli teflir fram sama liði og í fyrra og liðið er greinilega reynslunni ríkara því skólinn sigraði einnig í hraðaþrautinni í dag. Auk Erlínar skipa liðið þau Sigurjón Reynisson sem keppti í upphífingum og dýfum og Hanna Dóra Höskuldsdóttir og Viðar Hrafn Victorsson sem kepptu í hraðaþrautinni. Varamenn eru Þórunn Ólafsdóttir og Auðunn Ingi Davíðsson.

Lið Flóaskóla ásamt Örvari Rafni Hlíðdal, íþróttakennara og þjálfara liðsins. (F.v.) Þórunn, Erlín Katla, Hanna Dóra, Viðar Hrafn, Örvar Rafn, Sigurjón og Auðunn Ingi. Ljósmynd/Fanney Ólafsdóttir
Fyrri greinSelfoss fær nýjan markvörð
Næsta greinHamar mætir Vestra í undanúrslitum