Erlín Katla Hansdóttir úr Flóaskóla setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í hreystigreip í Skólahreysti í dag. Erlín hékk á slánni í 16:58 mínútur og bætti metið um tæpar tvær mínútur.
Fyrra metið var ekki orðið sólarhringsgamalt en í gærkvöldi sló Iðunn Embla Njálsdóttir úr Réttarholtsskóla eldra met þegar hún hékk í 15:02 mínútur. Eldra metið hafði staðið í fimm ár og var 12:40 mínútur.
Skólahreystispekingar voru á því að met Iðunnar Emblu yrði ekki slegið í bráð en Erlín Katla var ekki á sama máli. Í viðtali á RÚV eftir keppnina sagði Erlín að árangur Iðunnar í gærkvöldi hefði aðeins gert hana ákveðnari í að ná metinu. „Mér er ógeðslega illt,“ sagði Erlín brosandi þegar hún var nýkomin af slánni. „Mig langaði svo að ná metinu, ég varð að ná því.“
Fyrir keppnina í dag hafði Erlín Katla sýnt að hún væri til alls líkleg en hún sigraði í hreystigreypinni á úrslitakvöldinu í fyrra, hékk í 8:52 mínútur sem þá var þriðji besti tími sem náðst hafði í greininni.
Ekki nóg með það að Erlín hafi slegið í gegn í dag heldur stóð Flóaskóli sig frábærlega í keppninni og sigraði sinn riðil með talsverðum yfirburðum og er því kominn í úrslit. Flóaskóli teflir fram sama liði og í fyrra og liðið er greinilega reynslunni ríkara því skólinn sigraði einnig í hraðaþrautinni í dag. Auk Erlínar skipa liðið þau Sigurjón Reynisson sem keppti í upphífingum og dýfum og Hanna Dóra Höskuldsdóttir og Viðar Hrafn Victorsson sem kepptu í hraðaþrautinni. Varamenn eru Þórunn Ólafsdóttir og Auðunn Ingi Davíðsson.