„Það vantaði aðeins uppá þetta hjá okkur í kvöld,“ sagði Ómar Valdimarsson, þjálfari KFR, við sunnlenska.is eftir leik Ægis og KFR.
„Við gáfum þeim tvö mörk í fyrri hálfleik og það skildi liðin að.“ Ómar sagði að markmiðið á þessu tímabili fyrir liðið væri að læra að vinna og að það gengi ágætlega. En KFR vann fyrstu tvo leikina í deildinni í sumar.
„Við verðum bara að girða okkur í brók fyrir næsta leik,“ sagði Ómar sem var brattur þrátt fyrir að Ægir hafi unnið leikinn verðskuldað. „Við erum ennþá fyrir ofan þá,“ sagði Ómar og glotti.