Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, var stoltur af sínum mönnum eftir jafnteflið við topplið Akureyrar í N1-deildinni í kvöld.
„Fyrri hálfleikurinn var ekki auðveldur fyrir okkur. Það voru endalausar brottvísanir og víti fyrir allt. Við erum tveimur og þremur færri á móti besta liðinu og lendum sex mörkum undir og það tók tíma að vinna okkur út úr því,” sagði Sebastian í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Í hálfleik sögðum við hingað og ekki lengra, fórum vel yfir hlutina og í framhaldinu einbeittum við okkur að okkar leik. Það er það sem skilar þessu.”
Leikurinn í kvöld var ólíkur síðasta leik liðanna á Selfossi þar sem Akureyringar skoruðu tuttugu mörk úr hraðaupphlaupum. „Já, við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn. Það er langt liðið á tímabilið og þeir eru ekki með eins ferska fætur. Við náðum að hlaupa vel til baka og stoppa hraðaupphlaupin hjá þeim. Ég hef sagt það áður. Það er hægt að vinna Akureyri ef þú stoppar hraðaupphlaupin. En aftur á móti eru þeir með frábæran markmann sem enn og aftur sýndi í dag hvað hann er góður,” sagði Sebastian sem sjálfur átti frábæran fyrri hálfleik í markinu þar sem hann varði tólf skot. Hann varði hins vegar aðeins tvö skot á fyrsta korterinu í seinni hálfleik og skipti þá við Birki Bragason.
„Ég var fínn í fyrri hálfleik en ég missti einbeitinguna í seinni hálfleik því ég fór að hugsa of mikið um hvað var að gerast í mínu liði. Það er bara dauðadómur, ég hefði átt að fara fyrr útaf. Ég hef ekki látið þetta trufla mig í síðustu tveimur leikjum en það truflaði mig í kvöld og bitnaði á markvörslunni. En Birkir átti frábæra innkomu á lokakaflanum.”
Selfoss hefur nú náð í stig í síðustu þremur leikjum sínum og Sebastian er ánægður með karakterinn sem liðið er að sýna. „Menn segja að það hafi ekkert fallið með okkur, þriðja jafnteflið, rangir dómar og vafaatriði en ég er ósammála því. Við erum að sýna að við erum jafn góðir ef ekki betri en bestu lið landsins – ég vona bara að við séum ekki að sýna það of seint.”