Eva Lind íþróttamaður Ölfuss

Eva Lind Elíasdóttir, frjálsíþrótta- og knattspyrnukona var kjörin Íþróttamaður ársins 2011 í Sveitarfélaginu Ölfusi.

Íþrótta – og æskulýðsnefnd Ölfuss stóð fyrir árlegri verðlaunaafhendingu í Versölum á milli jóla og nýárs þar sem kjörið var tilkynnt.

Eva Lind æfði með úrvals og afrekshóp Frjálsíþróttasambands Íslands á árinu. Í frjálsum snéri hún sér nánast alfarið að kúluvarpi í byrjun árs eftir að hafa sett Íslandsmet seint á árinu á undan. Eva Lind sigraði nánast öll kastmót sem hún keppti í og allar kúluvarpskeppnir á Íslandi sem hún keppti í fyrir 22 ára og yngri en hún er aðeins 16 ára gömul. Þar ber helst að nefna héraðsmeistaratitil fullorðinna, Unglingalandsmótsmeistaratitil og Íslandsmeistaratitil í 15-16 ára flokki.

Einnig var Eva Lind valin í U-17 ára landslið Íslands í knattspyrnu sem tók þátt í Evrópumeistaramóti í Austurríki í október síðastliðnum. Þar stóð liðið sig afskaplega vel og skoraði Eva Lind m.a. eitt mark.

Tilnefndir í kjörinu voru:
Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir fyrir góðan árangur í fimleikum
Ingvar Jónsson fyrir góðan árangur í golfi
Þorkell Þráinsson fyrir góðan árangur í knattspyrnu
Baldur Þór Ragnarsson fyrir góðan árangur í körfuknattleik
Eva Lind Elíasdóttir fyrir góðan árangur í frjálsum íþróttum
Axel Örn Sæmundsson fyrir góðan árangur í badminton
Þorsteinn Helgi Sigurðsson fyrir góðan árangur í akstursíþróttum
Hjörtur Már Invarsson fyrir góðan árangur í sundi
Þorsteinn Guðnason fyrir góðan árangur í hestaíþróttum
Arnar Bjarki Sigurðsson fyrir góðan árangur í hestaíþróttum

Einnig heiðraði íþrótta – og æskulýðsnefnd tíu ungmenni sem kepptu með landsliðum Íslands, urðu Íslandsmeistarar eða bikarmeistarar á árinu.
Þeir Þorsteinn Már Ragnarsson, Emil Karel Einarsson, Erlendur Ágúst Stefánsson og Oddur Ólafsson fengu allir viðurkenningar fyrir að hafa spilað með yngri landsliðum Íslands í körfuknattleik.
Styrmir Dan Steinunnarson og Eva Lind Elíadóttir fengu viðurkenningar fyrir Íslandsmeistaratitla í frjálsum íþróttum.
Svavar Berg Jóhannson og Eva Lind Elíasdóttir fengu viðurkenningar fyrir að hafa spilað með yngri landsliðum Íslands í knattspyrnu.
Guðmundur Karl Guðmundsson fékk viðurkenningu fyrir að hafa spilað með landsliði Íslands í futsal.
Glódís Rún Sigurðardóttir fékk viðurkenningu fyrir Íslandsmeistaratitla og landsmótsmeistaratitill í hestaíþróttum.
Arnar Bjarki Sigurðsson fékk viðurkenningu fyrir að hafa keppt með íslenska landsliðinu í hestaíþróttum á heimsmeistaramóti.

Fyrri greinForsölukvöld fyrir Selfossþorrablót
Næsta greinÁrborg héraðsmeistari í handbolta