Eva Lind í afrekshópi FRÍ

Í liðinni viku var tilkynnt um hverjir eru í afrekshópi unglinga í frjálsum 2011-2012 og þeirra á meðal er Eva Lind Elíasdóttir úr Þór í Þorlákshöfn. Tólf liðsmenn HSK/Selfoss eru í úrvalshópi unglinga.

Eva Lind náði lágmarki í hópinn árið strax í byrjun janúar er hún varpaði 4 kg kúlu 11,61m, sem er 31 sm yfir lágmarkinu. Frábær árangur hjá Evu Lind en afrekshópurinn hefur ströng lágmörk og er næsta stig fyrir ofan úrvalshóp unglinga hjá FRÍ.

Í úrvalshópnum eru síðan tólf liðsmenn HSK/Selfoss. Í flokki 14 ára pilta og stúlkna eru það Sigþór Helgason í 100 m grindahlaupi og Dagný Lísa Davíðsdóttir í hástökki.

Í flokki 15 ára stúlkna eru það Sólveig Helga Guðjónsdóttir í sex hlaupagreinum; 60 m, 100 m, 200 m inni og úti, 400 m og 800 m hlaupi. Thelma Björk Einarsdóttir í kúluvarpi, bæði utanhúss og innanhúss. Guðrún Heiða Bjarnadóttir í 60 m, 100 m og 200 m hlaupum og þrístökki inni og Andrea Sól Marteinsdóttir í kúluvarpi.

Eva Lind er í úrvalshópnum í flokki 16-17 ára stúlkna í 60 m hlaupi, 60 m og 100 m grindahlaupi og 200 m hlaupi inni og auk þess í kúluvarpi innanhúss með bæði 3 og 4 kg kúlu.

Í flokki 18-19 ára eru Hreinn Heiðar Jóhannsson í hástökki og Dagur Fannar Magnússon í sleggjukasti og í flokki 20-22 ára pilta er Kristinn Þór Kristinsson í hópnum í 800 m hlaupi innanhúss og 1500 m hlaupi.

Hjá 20-22 ára stúlkum er Fjóla Signý Hannesdóttir í hópnum í 60 m, 100 m og 400 m grindahlaupum og 400 m hlaupi og Agnes Erlingsdóttir er í hópnum í 1500 m hlaupi.

Fyrri greinAffallsvatnið breytir spennustiginu
Næsta greinAndri Freyr framlengir við Selfoss