Lokaumferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu var leikin í dag. Selfoss tók á móti Grindavík á Jáverk-vellinum í hörkuleik.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Selfyssingar fengu nokkur dauðafæri undir lok hans og hefðu átt að komast yfir en staðan var 0-0 í hálfleik.
Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik og áttu skot bæði í stöng og slá áður en Grindvíkingar refsuðu með marki á 59. mínútu. Bæði lið áttu hálffæri í kjölfarið og Grindvíkingar gerðu réttlátt tilkall til vítaspyrnu sem þeir fengu ekki.
Sóknarþungi Selfoss jókst aftur á lokamínútunum en það var ekki fyrr en á þriðju mínútu uppbótartímans að boltinn datt fyrir Evu Lind Elíasdóttur eftir klafs í teignum og hún skoraði af öryggi. Þetta reyndist síðasta spyrna leiksins og úrslitin 1-1 jafntefli.
Selfossliðið var fallið úr deildinni áður en kom að þessum leik. Liðið lauk keppni með 15 stig í 9. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Grindavík í 8. sætinu.