Selfoss tryggði sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu með því að vinna öruggan sigur á Fjölni á heimavelli, 4-0.
Selfoss hafði yfirburði í fyrri hálfleik og Barbára Sól Gísladóttir kom liðinu yfir strax á 13. mínútu. Fimm mínútum síðar skoraði Eva Lind Elíasdóttir gott mark og hún var aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Staðan var 3-0 í leikhléi.
Meiri losarabragur var á leik Selfossliðsins í seinni hálfleik en allar sóknir Fjölnis strönduðu á sterkri Selfossvörninni. Þær vínrauðu hefðu að ósekju mátt skora meira af mörkum því þær fengu fín færi inn á milli áður en Eva Lind kórónaði þrennuna á 77. mínútu og tryggði liðinu 4-0 sigur.
Dregið verður í 8-liða úrslitin á morgun en þau verða síðan leikin síðustu helgina í júní.