Eva Lind Elíasdóttir skoraði þriðja mark U17 ára liðs Íslands í knattspyrnu sem lagði Kazakstan í dag 3-0 í undankeppni EM í Austurríki.
Þetta var annar leikur íslenska liðsins sem áður hafði unnið Austurríki 2-1 í fyrsta leik riðlakeppninnar. Með liðinu leika tveir leikmenn Selfoss, þær Guðrún Arnardóttir og Eva Lind Elíasdóttir.
Báðar voru þær á varamannabekknum í dag en Guðrún kom inná í hálfleik og Eva Lind á 60. mínútu. Hún kom Íslandi í 3-0 á lokamínútu leiksins.
Leikurinn í dag var viðureign kattarins að músinni. Íslenska liðið sótti linnulaust og átti 31 marktilraun í leiknum, gegn einni marktilraun Kazakstan.
Ísland mætir Skotum í lokaleik riðilsins á miðvikudag.