Selfoss og KR skildu jöfn, 3-3, í fyrsta leik Selfoss í efstu deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Leikurinn fór rólega af stað og leikmönnum gekk illa að hemja boltann við afleitar aðstæður í stífri NNA-áttinni. Selfyssingar léku með rokið í bakið og fátt markvert gerðist fyrr en á 16. mínútu að Eva Lind Elíasdóttir sendi boltann á besta leikmann vallarins, Valorie O’Brien, sem lét vaða að marki af 30 metra færi. Boltinn fór yfir markmann KR og söng í netinu, fyrsta mark Selfoss í efstu deild.
Tveimur mínútum síðar vann Eva Lind boltann fyrir utan vítateig KR og átti gott skot að marki sem markvörður KR varði nokkuð auðveldlega.
Á 23. mínútu sólaði Guðmunda Óladóttir sig inn á vítateig og hafði Katrínu Ýr Friðgeirsdóttur dauðafría við hlið sér en varnarmaður KR náði að reka tána í boltann áður en nokkuð varð úr færinu. Tveimur mínútum síðar skall hurð við hæla í vítateig Selfoss þegar KR náði sókn upp hægri kantinn, boltinn barst fyrir markið þar sem hann fór í Selfyssing og sigldi svo framhjá fjærstönginni.
Á 26. mínútu slapp Katrín Ýr ein innfyrir, lék á markvörð KR en fékk á sig pressu áður en hún náði skoti að marki. Hún náði því aðeins að pota tánni í boltann sem rúllaði laust í átt að marki áður en markvörðurinn hirti hann uppvið stöngina.
Selfyssingar komust í 2-0 á 42. mínútu þegar O’Brien átti glæsilegan skalla yfir markvörð KR eftir hornspyrnu Katrínar. Selfyssingar fögnuðu vel en gleymdu sér í næstu sókn KR þegar gestirnir geystust upp hægri kantinn og áttu skot í hliðarnetið.
Það var fyrirséð að leikurinn myndi snúast í seinni hálfleik. KR með vindinn í bakið og ljóst að mikið myndi mæða á Dagnýju Pálsdóttur, varamarkverði Selfoss, sem stóð á milli stanganna í dag. Nicole McClure sat á bekknum en hún meiddist á hné eftir samstuð á síðustu æfingu fyrir leik og er ekki ljóst hversu lengi hún verður frá.
Strax á 49. mínútu náðu KR-ingar góðu skoti að marki frá vinstra horni vítateigsins og boltinn sigldi yfir Dagnýju og hafnaði í fjærhorninu. Eftir það einkenndist leikurinn af þófi á vallarhelmingi Selfyssinga þar sem KR-ingar voru meira með boltann.
Á 66. mínútu jafnaði KR metin. Þær röndóttu áttu langskot að marki sem Dagný varði vel en hélt ekki boltanum. Sóknarmaður KR var fyrst að átta sig og potaði boltanum í netið. Á 73. mínútu voru gestirnir nálægt því að komast yfir þegar boltinn hafnaði í þaknetinu á marki Selfoss, beint úr hornspyrnu.
Mínútu síðar komst KR í 2-3. Eftir markspyrnu misstu Selfyssingar boltann klaufalega fyrir framan vítateiginn og leikmaður KR lét vaða að marki og yfir Dagnýju sem var með fingurgómana á knettinum.
Selfyssingar létu þetta ekki á sig fá og tvíefldust í sóknarleiknum. Á 77. mínútu slapp Eva Lind ein innfyrir og kláraði færið af stakri yfirvegun framhjá markverði KR. Eina markið á móti vindi og Selfyssingar áttu það fyllilega skilið.
Á lokamínútunum sóttu KR-ingar meira en fengu ekki færi. Selfyssingar börðust fyrir stiginu og gerðu vel í því að henda sér fyrir skot og á lausa bolta svo að niðurstaðan varð nokkuð sanngjarnt 3-3 jafntefli.
Til gamans má geta þess að nákvæmar veðurmælingar voru teknar í fjölmiðlastúkunni á meðan á leik stóð. Hiti var við frostmark en með vindkælingu í 15,6 m/sek má áætla að leikurinn hafi farið fram í -8°C frosti.