Hástökkvarinn Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, byrjar árið af krafti en hún sigraði með yfirburðum og bætti sig um 2 sentimetra á Nittany Lion Challenge, háskólamóti sem haldið var í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum um helgina.
Eva María stökk yfir 1,80 m og setti þar með HSK-met í flokki 19-22 ára innanhúss. Þessi árangur hennar er fimmti besti árangur íslenskrar konu í hástökki innanhúss frá upphafi.
Eva María, sem stundar háskólanám og æfingar í University of Pittsburgh, hefur verið að glíma við meiðsli í dágóðan tíma og er þessi árangur hennar því virkilega eftirtektarverður og verður spennandi að fylgjast með henni á innanhússtímabilinu.