Eva María hársbreidd frá úrslitum

Eva María Baldursdóttir og Dagur Fannar Einarsson í Bakú. Ljósmyndir/UMFS

Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, var hársbreidd frá þvi að komast í úrslit í hástökki á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Baku í Aserbaídsjan í dag.

Eva María, sem er 16 ára gömul, stökk yfir 1,72 m í þriðju tilraun og felldi naumlega 1,75 m. Þrettán stúlkur komust í úrslitin, ellefu þeirra stukku yfir 1,75 m og tvær yfir 1,72 m í fyrstu tilraun. Þetta er frábær árangur hjá Evu Maríu sem var að keppa á sínu fyrsta stórmóti við frekar erfiðar aðstæður en 29°C hiti var á vellinum á meðan hástökkskeppnin fór fram.  

Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, keppti sömuleiðis á mótinu en hann varð í 18. sæti í langstökki. Dagur Fannar stökk 6,24 m í flokki 16-17 ára en til að komast í úrslit hefði hann þurft að stökkva 6,83 m en hann á best 6,51 m síðan í júní á þessu ári. Atrennan var aðeins að stríða Degi í keppninni en hans fyrsta stórmót er flott í reynslubankann hjá þessum efnilega íþróttamanni.  

Fyrri greinSendur í fóstur í sunnlenska sveit
Næsta greinEystri-Rangá fyrst yfir þúsund laxa