Eva María Íslandsmeistari í hástökki

Eva María Baldursdóttir. Ljósmynd/UMFS

Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfoss, varð í dag Íslandsmeistari í hástökki á 93. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór á Laugardalsvellinum.

Eva María stökk 1,75 m og jafnaði þar með sinn besta árangur í greininni.

HSK/Selfoss átti aðeins átta keppendur á meistaramótinu en helmingur þeirra komst á verðlaunapall.

Fjóla Signý Hannesdóttir vann silfurverðlaun í 400 m grindahlaupi kvenna, hljóp á 62,12 sekúndum og hún krækti í bronsið í 100 m grindahlaupi, hljóp á 14,66 sek.

Dagur Fannar Einarsson var hársbreidd frá Íslandsmeistaratitlinum í 400 m grindahlaupi karla en gerði sér silfrið að góðu með tímann 57,81 sek.

Þá vann Hildur Helga Einarsdóttir silfurverðlaun í spjótkasti þegar hún kastaði 37,76 m.

Fyrri greinHeildarveltan í júní lægri en undanfarin ár
Næsta greinÞyrla sótti veika konu á Núpsheiði