Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfoss, varð í dag Íslandsmeistari kvenna í hástökki á 95. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var á Akureyri.
Eva María stökk yfir 1,65 m og það dugði henni til sigurs. Hún felldi síðan 1,68 m þrívegis.
Álfrún Diljá Kristínardóttir varð í 4. sæti í sleggjukasti á mótinu og hélt áfram að bæta héraðsmetin í greininni. Hún tvíbætti metið með 4 kg sleggju í 15 ára flokki en gamla metið, 33,25 m átti hún sjálf. Hún byrjaði á að bæta það um fjóra sentimetra en í fjórðu umferð náði hún risakasti upp á 37,44 metra og bætti þá einnig héraðsmetið í 16-17 ára flokki. Gamla metið í þeim flokki var 35,30 m og það átti Thelma Björk Einarsdóttir frá árinu 2013.
Níu keppendur frá aðildarfélögum HSK/Selfoss tóku þátt á meistaramótinu um helgina og voru nokkrir þeirra ofarlega á blaði í sínum greinum. Veigar Þór Víðisson varð í 4. sæti í langstökki, Viktor Karl Halldórsson fjórði í spjótkasti og Sebastian Þór Bjarnason í 5. sæti í kringlukasti. Álfrún Diljá varð í 5. sæti í kúluvarpi og þar varð Árbjörg Sunna Markúsdóttir í 6. sæti. Þá varð Hanna Dóra Höskuldsdóttir í 5.-6. sæti í hástökki.