Hástökkvarinn Eva María Baldursdóttir frá Selfossi mun keppa á Norðurlandameistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss í Helsinki í Finnlandi næstkomandi sunnudag.
Ísland og Danmörk tefla fram sameiginlegu liði á mótinu og er Eva María annar tveggja hástökkvara liðsins í kvennaflokki.
Eva María er núverandi Íslandsmeistari kvenna utanhúss í hástökki en hún á best 1,73 m innanhúss. Því stökki náði hún á Unglingamóti HSK í janúar síðastliðnum og hún jafnaði svo sinn besta árangur á Reykjavík International Games um síðustu helgi.
Eva María hefur átt góðar tilraunir við 1,75 að á þessum mótum, þannig að stutt er í frekari bætingu ef allt smellur saman hjá henni.