
Lið HSK/Selfoss varð í 3. sæti á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina.
HSK/Selfoss fékk 244,5 stig og var talsvert á eftir Breiðabliki sem varð í 2. sæti með 355,5 stig og ÍR sem sigraði með 449,5 stig.
HSK/Selfoss sigraði í einum aldursflokki, flokki pilta 16-17 ára.
Eva María Baldursdóttir setti mótsmet þegar hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í hástökki stúlkna 16-17 ára. Eva María stökk yfir 1,72 metra sem er einum sentimetra frá hennar besta árangri innanhúss.
Tómas Þorsteinsson og Dagur Fannar Einarsson urðu báðir þrefaldir Íslandsmeistarar. Tómas sigraði í 60 m hlaupi, þrístökki og kúluvarpi í flokki 15 ára pilta og Dagur Fannar sigraði í 60 m grindahlaupi, langstökki og 400 m hlaupi í flokki 18-19 ára pilta.
Fimm héraðsmet féllu á mótinu. Dagur Fannar hljóp 60 m hlaup á 7,15 sek og varð í 2. sæti en tíminn er HSK met í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára.
Þá setti Sindri Freyr Seim Sigurðsson þrjú HSK met þegar hann hljóp 200 m hlaup og sigraði í flokki 16-17 ára pilta á 23,09 sek. Tíminn er héraðsmet í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.



