Hástökkvarinn Eva María Baldursdóttir og júdómaðurinn Egill Blöndal voru útnefnd íþróttafólk ársins hjá Ungmennafélagi Selfoss.
Allar deildir félagsins tilnefndu tvo íþróttamenn og sérstök valnefnd innan félagsins útnefndi þau Evu og Egil. Helgi S. Haraldsson, formaður Umf. Selfoss, veitti íþróttafólkinu viðurkenningar í hófi í félagsheimilinu Tíbrá í gærkvöldi.
Eva María er varði Íslandsmeistaratitil sinn í hástökki á árinu auk þess að verða Íslandsmeistari 15-22 ára innanhúss. Þá hlaut hún gullverðlaun á Reykjavik International Games og varð í 4. sæti á Norðurlandameistaramótinu utanhúss en Eva María hefur fest sig í sessi sem einn allra sterkasti hástökkvarinn á Norðurlöndunum og ein sú allra efnilegasta í Evrópu og heiminum um þessar mundir.
Egill átti sömuleiðis gott ár, hann varð meistari á Evrópumeistaramóti smáþjóða auk þess að landa Íslandsmeistaratitli í sínum þyngdarflokki. Hann er einn öflugasti júdómaður landsins í dag en hann vann Íslandsmeistaratitilinn í -90 kg flokknum fimmta árið í röð.