Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, setti Íslandsmet í hástökki 14 ára stúlkna þegar hún stökk 1,68 m á aldursflokkamóti HSK í Þorlákshöfn þann 11. júní sl.
Eva María átti einnig góðar tilraunir við 1,70 m.
Aldursflokkamót 11-14 ára og Héraðsleikar HSK 10 ára og yngri í frjálsum íþróttum fóru fram samhliða sunnudaginn 11. júní í Þorlákshöfn. Veðrið lék við keppendur þennan góðviðrisdag og mörg met féllu.
Á héraðsleikunum fengu allir þátttakendur viðurkenningu fyrir þátttökuna í anda íþróttastefnu ÍSÍ en efstu þrír þátttakendur fengu verðlaun á aldursflokkamótinu. Á aldursflokkamótinu var einnig keppt um heildarstigabikar og fóru leikar þannig að Umf. Selfoss sigraði stigakeppnina með 329 stig. Umf. Hrunamanna var í öðru sæti með 200,5 stig og Umf. Þór í því þriðja með 108 stig.
Meistaramót Íslands 11-14 ára fer fram í Kópavogi núna um helgina en næsta mót á sambandssvæði HSK er héraðsmót fullorðinna en það fer fram dagana 27.-28. júní á Selfossvelli.
Þar á eftir er komið að stærsta viðburði sumarsins en það er Meistaramót fullorðinna sem haldið verður á Selfossvelli dagana 8.-9. júlí. Framkvæmdanefnd mótsins er á fullu í því að finna sjálfboðaliða til að starfa á mótinu og eru allar hendur vel þegnar. Þeim sem hafa áhuga á því að hjálpa til á mótinu er bent á að hafa samband á gudmunda89@gmail.com.