Selfyssingar leika í dag seinni leik sinn í Evrópubikar karla í handbolta gegn slóvenska liðinu Jeruzalem Ormož.
Leikurinn fer fram í Hardek íþróttahöllinni í Ormož í dag og verður flautað til leiks kl. 16:00. Leikurinn er í beinni útsendingu á Youtube og má sjá útsendinguna hér að neðan.
Fyrri leik liðanna lauk með 31-31 jafntefli í Set-höllinni á Selfossi um síðustu helgi. Selfyssingar þurfa því að spila til sigurs í kvöld, gegn léttleikandi liði Ormož, en jafntefli dugar Selfyssingum ef þeir skora fleiri en 31 mark.
Selfossliðið ferðaðist til London á fimmtudag og frá London til Zagreb í Króatíu í gær, hvaðan liðið fór með langferðabíl til Ormož. Bærinn er á landamærum Króatíu og Slóvakíu og stendur við bakka stórfljótsins Drava, þannig að Selfyssingar ættu að kunna vel við sig á þessum slóðum.
Mikil meiðsli hafa verið í herbúðum Selfoss undanfarna mánuði en menn hafa verið að koma til baka síðustu dagana. Þannig fóru Guðmundur Hólmar Höskuldsson, Tryggvi Þórisson og Árni Steinn Steinþórsson allir með til Slóveníu og einnig Ragnar Jóhannsson sem sat hjá í síðasta deildarleik vegna bakmeiðsla. Atli Ævar Ingólfsson er hins vegar fjarverandi eftir að hafa farið í vel heppnaða aðgerð á hné á dögunum og verður ekki leikfær fyrr en eftir áramót.