Eyþór Lárusson, þjálfari kvennaliðs Selfoss í handbolta, hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til þriggja ára.
Eyþór hefur verið aðalþjálfari meistaraflokks kvenna síðan sumarið 2022. Þar áður hafði hann þjálfað yngri flokka Selfoss í 15 ár.
„Ég er spenntur fyrir því að vinna með Selfossliðinu næstu árin og taka áfram þátt í uppbyggingu kvennahandboltans á Selfossi. Við erum rétt að byrja!“ segir Eyþór.
Undir orð Eyþórs er tekið í fréttatilkynningu frá Selfyssingum þar sem segir að gaman hafi verið að fylgjast með meistaraflokki vaxa allt síðasta tímabil og fyrir höndum sé spennandi næsta skref í uppbyggingunni.