Ægismenn fóru illa að ráði sínu þegar þeir töpuðu 1-2 á útivelli gegn KV í B-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
Leikurinn var í járnum mestallan tímann og bæði lið fengu ákjósanleg tækifæri til að bæta við mörkum. Heimamenn komust yfir í fyrri hálfleik en Eyþór Guðnason jafnaði leikinn fyrir Ægi undir lok hálfleiksins.
Staðan var 1-1 í leikhléi en í síðari hálfleik hefðu Ægismenn átt að bæta við mörkum þar sem nokkur dauðafæri fóru í súginn. Luc Mahop brenndi m.a. af vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. KV tryggði sér sigurinn þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en þetta var fyrsti sigur liðsins í sumar.