Fallbaráttuslag Selfoss og Þróttar í 1. deild karla í knattspyrnu hefur verið frestað um einn dag vegna gruns um smit í herbúðum Þróttar.
Leikurinn átti að fara fram á miðvikudagskvöld á Selfossvelli en hefur verið færður yfir á fimmtudag og hefst kl. 19:15.
Fótbolti.net greinir frá því að grunsemdir séu um smit innan raða Þróttara og fóru leikmenn liðsins í skimun í dag. Þeir þurfa að bíða í einn dag eftir niðustöðum.
Leikurinn er mjög mikilvægur í fallbaráttu deildarinnar. Selfoss er nú með 12 stig í 10. sæti deildarinnar en þar fyrir neðan er Þróttur í fallsæti með 7 stig.