Alls mættu 46 fulltrúar á 98. héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðins sem var haldið á Hvolsvelli í síðustu viku.
Þingið átti að fara fram í marsmánuði, en því var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Sóttvarnir voru í hávegum hafðar á þinginu en mælst var til þess að einn fulltrúi kæmi frá hverju félagi og gekk það eftir. Á venjulegu ári hefðu þingfulltrúar verið hátt í 130 talsins.
Að sögn Engilberts Olgeirssonar, framkvæmdastjóra HSK, hefur fámennara héraðsþing ekki verið haldið síðan árið 1959.
„Trúlega hefur héraðsþing ekki staðið skemur í sögu sambandsins, en þinghaldið tók klukkutíma og korter, enda var ýmsum hefðbundnum dagskrárliðum sleppt. En þinghaldið gekk vel fyrir sig og vel var hugað að sóttvörnum. Heimafólk frá Rangárþingi eystra og Dímon á bestu þakkir skildar fyrir kaffiveitingar og aðstoð við þinghaldið,“ segir Engilbert.
Stjórn HSK lagði fram 10 tillögur á þinginu og voru þær allar samþykktar, þar á meðal tillaga um að veita Íþróttafélagi Uppsveita aðild að HSK. Aðildarfélög sambandsins eru nú 58 talsins.
Í lok þings var kosið í starfsnefndir sambandsins og þá var stjórn og varastjórn sambandsins endurkjörin.