Fáránlegt framlag hjá Field

Richard Field var maður leiksins þegar FSu lagði Laugdæli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 75-85 á Laugarvatni.

Field skoraði 39 stig fyrir FSu og tók 20 fráköst en framlag hans í leiknum var 54 og var hann með langhæsta framlagið á vellinum.

FSu byrjaði betur og leiddi að loknum 1. leikhluta, 18-27. Laugdælir byrjuðu betur í 2. leikhluta og náðu að minnka muninn í tvö stig, 26-28 en þá tóku gestirnir aftur við sér og náðu 11 stiga forskoti í hálfleik, 29-40.

Selfyssingar gerðu svo út um leikinn í 3. leikhluta þar sem Laugdælir réðu ekkert við Richard Field en hann skoraði 15 stig í þessum leikhluta.

Leikurinn hélt áfram að vera kaflaskiptur því Laugdælir tóku sig á og minnkuðu 20 stiga forskot FSu niður í 7 stig þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Þá var þróttur liðsins búinn og FSu kláraði leikinn.

Sigurður Orri Hafþórsson og Jón H. Baldvinsson voru stigahæstir heimamanna með 18 stig en Jón tók 10 fráköst að auki. Pétur Már Sigurðsson og Anton Kári Kárason skoruðu báðir 10 stig.

Sem fyrr segir var Field með risatvennu fyrir FSu en næstir honum komu Orri Jónsson með 18 stig og Valur Orri Valsson skoraði 14.

Liðin eru nú komin í jólafrí en Þór Þorlákshöfn leikur á föstudaginn gegn Skallagrím á útivelli.

Staðan:
1 Þór Þ. 8/0
2 FSu 7/2
3 Þór Ak. 6/2
4 Skallagrímur 5/3
5 Valur 5/4
6 Breiðablik 4/5
7 Ármann 2/6
8 Höttur 2/6
9 Laugdælir 2/7
10 Leiknir 1/7

Næstu leikir:
17.12. Ármann-Leiknir R.
17.12. Skallagrímur-Þór Þ.
17.12. Þór Ak.-Höttur.

Fyrri greinLofa áframhaldandi þjónustu
Næsta greinÓsigraðar inn í jólafríið