Í haust ákváðu þær Ásta Björk Pálsdóttir og Hildur Grímsdóttir að bjóða upp á sérstaka Metabolic tíma á Selfossi en báðar eru þær menntaðir ÍAK einkaþjálfarar.
Metabolic æfingakerfið er í grunninn stöðvaþjáfunarkerfi sem kennt er í formi hópþrektíma, hannað fyrir þá sem vilja komast í frábært alhliðaform og hafa gaman af því.
„Við vinnum með ýmis skemmtileg áhöld svo sem ketilbjöllur, kaðla, kraftbolta og teygjur auk þess að vinna með eigin líkamsþyngd. Það eru engar tilviljanir í Metabolic æfingakerfinu,” segir Hildur og Ásta heldur áfram: „Allir tímar eru fyrirfram hannaðir í ákveðinni röð þar sem vel er gætt að því að jafnt sé unnið með styrk, þol og kraft. Nafnið Metabolic þýðir efnaskipti en rauði þráðurinn í kerfinu er áhersla á að auka efnaskiptahraða líkamans, þ.e. að auka brennsluna.”
Iðkendur á öllum aldri
Þær Ásta og Hildur segja að iðkendur Metabolic séu á öllum aldri en þeir yngstu eru 17 ára og þeir elstu eru komnir vel á sextugsaldur. „Eitt af því allra besta við Metabolic æfingakerfið er að sama hvort fólk sé að byrja að hreyfa sig eða er búið að vera í ræktinni í lengri tíma þá geta allir tekið þátt og fengið mikið út úr þjálfuninni. Við vinnum mikið með ákveðinn tímaramma svo þátttakendur stjórna álaginu sjálfir,” segir Hildur og bætir því við að þær séu yfirleitt með tvær útgáfur af hverri æfingu þannig að fólk fær æfingu við sitt hæfi.
Strákarnir farnir að taka við sér
Ásta segir að flestir Metabolic iðkendur á Selfossi séu konur en á öðrum stöðum á landinu sé kynjahutfallið frekar jafnt. „En karlarnir hér á Selfossi eru farnir að taka við sér og eru farnir að mæta í tíma,” segir Ásta en segir að um létt grín sé að ræða og þeim finnist frábært þegar strákarnir láti sjá sig.
Ekkert mál að mæta á æfingu korter yfir sex
Þær stöllur segja að viðtökurnar við Metabolic hafi verið mjög góðar og að nú þegar hafi myndast góður kjarni sem mætir reglulega á æfingar sem fara fram fjórum sinnum í viku. Þeir sem eru áhugasamir geta komið á æfingu hvenær sem er. „Tímarnir eru alla virka daga nema miðvikudaga klukkan 6:15,” segir Hildur sem segir að vissulega geti verið erfitt að vakna svona snemma ef fólk fer seint að sofa. „En þetta venst vel og kemst fljótt í rútínu með því að fara aðeins fyrr að sofa á kvöldin. Iðkendurnir okkar segja að þetta sé ekkert mál enda sé fátt betra en að byrja daginn á góðri æfingu í góðum félagsskap,” segja þær Ásta og Hildur brosandi að lokum.