Selfyssingar töpuðu í kvöld fyrir Haukum í 1. deild karla í knattspyrnu og heyja áfram harða baráttu í botnslag deildarinnar.
Leikurinn fór rólega af stað en Haukar komust yfir á 22. mínútu. Björgvin Stefánsson skoraði þá uppúr hornspyrnu eftir að Selfyssingum hafði mistekist að hreinsa frá marki.
Á 45. mínútu kom Zlatko Krickic Haukum í 2-0 eftir góða rispu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Það var fátt um færi hjá Selfyssingum í kvöld en besta færi liðsins fékk Andy Pew þegar hann átti skalla í þverslána eftir hornspyrnu um miðjan seinni hálfleik.
Haukar voru hins vegar sterkari aðilinn heilt yfir og þeir innsigluðu 3-0 sigur sinn á 87. mínútu en þar var Björgvin Stefánsson aftur á ferðinni.
Selfoss er áfram í 10. sæti deildarinnar með 17 stig og Grótta er þar fyrir neðan í fallsæti með 15 stig og á leik til góða.
Næsti leikur Selfyssinga er sex stiga leikur gegn Gróttu á Selfossvelli þann 5. september.