Eftir ellefu leiki í röð án taps biðu Selfyssingar lægri hlut gegn ÍA á heimavelli í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Leikurinn var ákaflega tíðindalítill í belgingnum á Selfossi. Selfoss var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og átti nokkrar góðar sóknir inn á milli en herslumuninn vantaði að koma boltanum í netið. Besta marktækifæri Selfoss kom um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Magdalena Reimus átti fyrirgjöf sem varnarmaður ÍA kiksaði í stöngina og út.
Staðan var 0-0 í hálfleik en Selfyssingar höfðu vindinn í bakið í síðari hálfleik. Það kom þó ekki að neinu gagni því liðinu tókst ekki að skapa sér opið færi. Alex Alugas átti skot fyrir utan teig á 53. mínútu sem markvörður ÍA varði með naumindum og um miðjan seinni hálfleikinn lenti hornspyrna Önnu Maríu Friðgeirsdóttur ofan á þverslánni.
Skagakonur fengu heldur ekki nein opin færi en náðu að nýta sér fast leikatriði á 67. mínútu. ÍA fékk þá hornspyrnu sem rataði á kollinn á Unni Haraldsdóttur á fjærstönginni. Hún stangaði boltann í netið og reyndist það eina mark leiksins.
Þrátt fyrir tapið er Selfoss enn í toppsæti deildarinnar með 32 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.