Í kvöld fór fram feykisterk fimmgangskeppni í Suðurlandsdeildinni í hestaíþróttum í Rangárhöllinni á Hellu. Eftir frábærar sýningar og magnaða skeiðspretti var það lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sem stóð uppi sem sigurvegari en knapar þess lið lentu í 1. og 13. sæti í flokki áhugamanna og 2. og 14. í flokki atvinnumanna.
Í flokki áhugamanna sigraði Hafþór Hreiðar Birgisson á Þór frá Meðalfelli með einkunnina 6,43. Í 2. sæti varð Sigurður Halldórsson á Gusti frá Efri-Þverá með einkunnina 6,24 og skammt á eftir í 3. sætinu voru Sanne Van Hezel og Völundur frá Skálakoti með 6,21.
Í flokki atvinnumanna sigruðu Selina Bauer og Páfi frá Kjarri með einkunnina 7,00 eftir hörkukeppni við Hans Þór Hilmarsson og Sindra frá Hjarðartúni sem urðu í 2. sæti með einkunnina 6,98. Í 3. sæti urðu Sigurður Sigurðarson og Hallsteinn frá Þjóðólfshaga 1 með 6,79.
Í liðakeppninni náði Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún í 85 stig í kvöld en þar á eftir komu Byko með 78 stig og Hemla/Hrímnir/Strandarhöfuð með 73 stig. Lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns saxar því aðeins á Byko í toppsætinu í liðakeppninni en eftir þrjár fyrstu greinarnar í Suðurlandsdeildinni er Byko í 1. sæti með 268,5 stig, þá lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns með 255,5 stig og í þriðja sæti lið Krappa með 225,5 stig. Það er þó nóg af stigum eftir í pottinum, þar sem á lokakvöldinu verður keppt í tveimur greinum, tölti og skeiði.
Síðasta keppniskvöld Suðurlandsdeildarinnar verður utandyra á Rangárbökkum þann 26. apríl og hefst keppni kl. 18:00.