FH-ingar fljótir að refsa

Það var virkilega súrt, eplið sem Selfyssingar þurftu að bíta í að loknum leiknum gegn FH í Pepsi deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Liðin mættust á Selfossvelli þar sem staðan var 0-0 allt fram á 79. mínútu að FH-ingar skoruðu eina mark leiksins. Selfossvörnin hafði varist nokkuð vel fram að því og markalaust jafntefli lá í loftinu.

Strax á 6. mínútu leiksins sluppu FH-ingar í gegn en Ismet Duracak var vel á verði í marki Selfoss. Annars voru fyrstu tuttugu mínúturnar jafnar og tíðindalitlar.

Á 24. mínútu skoraði Babacar Sarr skallamark eftir hornspyrnu en dómarinn dæmdi markið af, líklega vegna bakhrindingar í teignum. Mínútu fyrir leikhlé komust FH-ingar í ágætt færi en skot Atla Guðnasonar fór rétt framhjá.

FH byrjaði seinni hálfleikinn á hörkufæri en hittu ekki á markið frá markteig. Eftir það einkenndist leikurinn af miðjuþófi þar sem bæði lið áttu ágæt tilþrif. Það var síðan á 79. mínútu að Selfyssingar misstu boltann á miðjunni og FH-ingar voru snöggir að refsa, léku upp að vítateig, þar sem Albert Ingason lagði boltann snyrtilega fyrir Björn Daníel Sverrisson sem skoraði með viðstöðulausu skoti.

Eftir markið vöknuðu Selfyssingar af Þyrnirósarsvefninum og gerðu harða hríð að marki FH. Þeir vínrauðu uppskáru tvö ágæt færi en inn vildi boltinn ekki og fimleikadrengirnir úr Hafnarfirði fögnuðu sigri.

Að þremur umferðum loknum eru Selfyssingar í 9. sæti deildarinnar með 3 stig. Næsti leikur liðsins er á mánudagskvöld, gegn Fram á útivelli. Fram vann sinn fyrsta sigur í deildinni í kvöld og er einnig með 3 stig í 8. sæti.

Fyrri grein„Hefðum átt að fá eitthvað út úr leiknum“
Næsta greinFyrirlestur um rannsóknir á skemmdum í mannvirkjum