Selfoss heimsótti FH í Skessuna í Hafnarfirði í 1. umferð Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag.
Selfoss tefldi fram ungu liði sem stóð sig ágætlega í leiknum, þó að FH hafi reynst of stór biti þegar upp var staðið. Hafnfirðingarnir skoruðu eitt mark í hvorum hálfleik og sigruðu 2-0.
Marga lykilmenn vantaði í lið Selfoss í dag en yngri leikmenn fengu tækifæri og athygli vakti að meðalaldurinn á varamannabekk Selfyssinga var aðeins 17 ár.
Næsti leikur Selfyssinga er að viku liðinni en þá kemur úrvalsdeildarlið Fram í heimsókn á Selfossvöll.