Íslensku landsliðsmennirnir í hópfimleikum frá Selfossi fengu góðar móttökur í íþróttahúsinu Baulu síðdegis í dag. Í tilefni af góðum árangri krakkana fékk deildin veglega peningagjöf.
Tólf keppendur fóru frá Selfossi og kepptu fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Árósum. Selfoss átti fulltrúa í blönduðum liðum unglinga og fullorðinna og einnig í stúlknaliðinu sem tryggði sér Evrópumeistaratitilinn.
Auk keppendanna tólf átti Umf. Selfoss tvo landsliðsþjálfara en Sigrún Ýr Magnúsdóttir stýrði dansinum í unglingaliði blandaðra liða og Olga Bjarnadóttir stýrði stökkhlutanum í sama liði.
Hópurinn fékk góðar móttökur í Baulu síðdegis í dag þar sem fimleikadeildin færði þeim blóm auk þess sem sveitarfélagið heiðraði hópinn og Jón Rúnar Bjarnason, útibússtjóri Íslandsbanka á Selfossi, færði deildinni 500 þúsund króna styrk frá Íslandsbanka.
Hópurinn frá Selfossi sem fór á mótið í Danmörku. sunnlenska.is/Vignir Egill