Fimleikastelpur frá Heklu æfðu í Svíþjóð

Hópurinn frá Umf. Heklu sem fór til Svíþjóðar. Ljósmynd/Aðsend

Níu stelpur úr elsta fimleikahópnum hjá Ungmennafélaginu Heklu fór í æfingabúðir til Västerås í Svíþjóð dagana 5.-11 ágúst síðastliðinn.

Hópurinn æfði í fimm daga, sex tíma á dag, undir leiðsögn þriggja landsliðsþjálfara frá Svíþjóð og Austurríki sem og þjálfara frá félaginu VGF Hallen þar sem æfingabúðirnar voru haldnar.

Rúmlega áttatíu þátttakendur voru í æfingabúðunum og auk hópsins frá Umf. Heklu komu hópar frá Svíþjóð, Hollandi og Ármanni í Reykjavík.

Að sögn Erlu Sigríðar Sigurðardóttur, fimleikaþjálfara hjá Heklu, hafa stelpurnar sýnt miklar framfarir eftir æfingaferðina og vilja þær nota tækifærið og þakka öllum þeim sem styrktu þær á einn eða annan hátt til að láta þennan draum verða að veruleika. „Þetta var ævintýri líkast!“

Fyrri greinLandgræðslunemar plöntuðu út í vinaskóginn
Næsta greinHellisheiðin lokuð til vesturs