Fimm gull á afmælismóti

Selfyssingar náðu frábærum árangri á afmælismóti Júdósambands Íslands sem fram fór þann 2. febrúar sl. í húsnæði Júdófélags Reykjavíkur.

Þátttakendur voru um 90 talsins en keppt var í aldursflokkum 11–14 ára og 15–20 ára. Sjaldan hafa sést önnur eins tilþrif og á þessu móti og áttu keppendurnir frá Selfossi ekki hvað síst þátt í því að setja kröftugan og glæsilegan svip á mótið.

Bjartþór Böðvarsson gaf línuna fyrir daginn. Hann vann allar sínar viðureignir á fullnaðarsigri og var sú stysta aðeins 4 sekúndur og gullið tryggt. Gaman verður að fylgjast með Bjartþóri í framtíðinni.

Halldór Bjarnason var heldur ekkert að tvínóna við hlutina. Hann vann allar sínar viðureignir á fullnaðarsigri. Voru aðfarirnar þannig að menn gripu andann á lofti, þar sem Halldór var lægri í loftinu en andstæðingar hans, og bjuggust flestir við því að þetta yrði erfitt hjá Halldóri, en skildu svo ekki hvaðan þetta heljarafl og tækni komu. Þeir sem lentu í klónum á Halldóri voru fastir eins og í skrúfstykki. Gullið var Halldórs og hann vel að því kominn.

Úlfur Böðvarsson er vanur að vinna sínar viðureignir og það gerði hann svo sannarlega þennan daginn. Hann vann sína fyrri glímu á 5 sekúndum. Garðar þjálfari bað hann fallega að flýta sér ekki svona mikið næst vegna þess að ekki hefði tekist að ná mynd. Hann lofaði að gefa betri tíma til myndatöku í næstu viðureign. Þá viðureign vann hann á mun lengri tíma eða 7 sekúndum, og gull í höfn.

Grímur Ívarsson á ættir að rekja til mikilla afreksmanna, en afi hans, Gísli Þorsteinsson, var einn besti júdómaður Norðurlanda árum saman. Greinilega hefur Grímur erft eitthvað frá feðrum og mæðrum sínum því hann vann sínar viðureignir auðveldlega og en eitt gull til UMFS.

Egill Blöndal var síðasti keppandi UMFS þennan daginn. Egill fór á kostum og sannaði að hann er bestur allra í flokki undir 20 ára. Vegna smá mistaka var Egill of þungur í vigtun og náði ekki í sinn flokk -81 kg og lenti því í þyngdarflokki -100 kg. Þetta virtist ekki breyta neinu fyrir Egil sem sigraði alla andstæðinga sína auðveldlega. Þó verður að viðurkenna að Sigurpáll Albertsson, UMFG, var mjög öflugur og gaf ekkert eftir. Síðasta gull dagsins.

Þeir Ýmir Ingólfsson og Hrafn Arnarsson stóðu sig frábærlega og náðu báðir silfri. Ýmir var aðeins hársbreidd frá því að vinna gull þegar hann meiddist og þurfti að hætta keppni.

Eyþór Óskarsson og Guðmundur Bjarni Jónsson unnu báðir bronsverðlaun. Sérlega glæsilegt hjá Guðmundi sem var að taka þátt í sínu fyrsta móti.

Þá tók Ásgeir Halldórsson þátt í sínu fyrsta móti. Hann fékk mjög sterka andstæðinga, sem hann réði ekki við þennan daginn, en Ásgeir byrjaði að æfa júdó síðastliðið haust.

Heimasíða UMFS

Fyrri greinViðgerð lokið á Rangárvöllum
Næsta grein„Gjaldkerinn brosir alveg hringinn“