Stórmót ÍR í frjálsíþróttum fór fram um síðustu helgi. Fjöldi keppenda tók þátt í mótinu af sambandssvæði HSK og náðist góður árangur í mörgum greinum.
Kristinn Þór Kristinsson Samhygð sigraði með yfirburðum í 800 m hlaupi karla á 1:52,30 mín., sem er besti árangur hér á landi í greininni í ár. Í kjölfarið var hann valinn til þátttöku á Nordic Challenge, sem haldið verður í Noregi 14. febrúar nk. Kristinn keppti svo í 400 m hlaupi, þar sem hann fór í fyrsta sinn undir 50 sek., hljóp á 49,78 sek. og bætti eigið HSK met í karlaflokki, en Kolbeinn Höður Gunnarsson UFA sigraði á nýju Íslandsmeti.
Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór átti frábært mót, keppti í sex greinum í flokki 16 – 17 ára, fékk tvö gull, tvö silfur og eitt brons og bætti sig í þeim öllum. Styrmir hóf keppni á að hlaupa 60 m hlaup við sitt besta, 7,81 sek, en þar varð Teitur Örn Einarsson Selfossi á 7,82 sek. Næst bætti Styrmir sig um tæpan metra í kúluvarpi með 12,24 m, þá stökk hann langstökk til silfurs er hann bætti sig um 29 cm. stökk 6,29 m.
Á seinni deginum sigraði hann í 60 m grindahlaupi, kom í mark á 8,86 sek. en átti áður 9,25 sek. þá tók stöngin við en þar fór hann yfir 3,20 m, lenti í öðru sæti og bætti sig um 10 cm. Styrmir endaði svo daginn á því að fara 1,90 m í hástökki og sigra auðveldlega. Í sama flokki náði Ástþór Jón Tryggvason Selfoss góðum árangri í lengri hlaupunum. Hann keppti í 3000 m hlaupi þar sem hann bætti sig og varð annar á tímanum 10:45,52 mín. Þessi árangur er HSK met í 16-17 ára flokki, 18-19 ára flokki og 20-22 ára. Hann kom svo þriðji í mark í 1500 m hlaupi á góðri bætingu, 4:54,58 mín.
Teitur Örn varð svo þriðji í kúluvarpi í 16 – 17 ára flokki með bætingu varpaði kúlunni 13,34 m. Í kúluvarpi í kvennaflokki hreppti Thelma Björk Einarsdóttir Selfoss þriðja sætið er hún kastaði 11,05 m.
Sú nýbreytni var á þessu móti að veittar voru viðurkenningar fyrir fyrir mestu framfarir í hverri grein, frábær nýjung og komu nokkrar viðurkenningar til keppenda á sambandssvæðinu.
Dagur Fannar Einarsson sigraði í 600 m hlaupi í 13 ára flokki á 1:47,61 mín og bætti um leið HSK met Teits Arnar um rétt tæpar 5 sekúndur.
Hjalti Snær Helgason varð annar í kúluvarpi í 12 ára flokki með 7,55 m og fékk einnig viðurkenningu fyrir mestu bætinguna í sínum flokki. Jónas Grétarsson komst í úrslit í 60 m hlaupi í 13 ára flokki og hljóp á 9,03 sek og fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarir í þessari grein.
Of langt mál yrði að telja upp alla verðlaunahafa í yngri flokkum, en hægt er að skoða heildarúrslitin á Þór, nýju mótaforriti FRÍ.