Fimm Selfyssingar eru í landsliðshópnum sem Guðmundur Guðmundsson valdi í dag fyrir heimsmeistaramótið í handbolta sem hefst í Þýskalandi í lok vikunnar.
Stærstu fréttirnar eru þær að Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði Íslands, meiddist í dag þannig að Bjarki Már Elísson kemur aftur inn í hópinn. Hann hafði áður dottið út úr hópnum en kom inn fyrir æfingaleikina í Noregi um síðustu helgi.
Þá er Teitur Örn Einarsson kallaður inn í hópinn á nýjan leik en hann hefur ekki tekið þátt í síðustu verkefnum liðsins. Teitur hefur staðið sig mjög vel með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í vetur.
Ómar Ingi Magnússon er á sínum stað í hægri skyttunni, ásamt Teiti, og Elvar Örn Jónsson er í leikstjórnandahlutverkinu á miðjunni.
Framtíð Hauks er mjög björt
Janus Daði Smárason dettur út úr hópnum en Haukur Þrastarson er kallaður inn aftur og verður til taks sem sautjándi maður. Guðmundur landsliðsþjálfari sagði á blaðamannafundi sem er nýlokið að framtíð Hauks sé mjög björt með landsliðinu og því vilji hann hafa hann til staðar í Þýskalandi.
Miklar breytingar hafa orðið á landsliðshópnum á síðustu dögum, vegna meiðsla og veikinda, þar af tvær á síðustu stundu fyrir blaðamannafundinn í dag. Guðmundur sagði á fundinum að hann hefði aldrei lent í öðru eins á sínum þjálfaraferli.
Liðið heldur til München á morgun og mætir Króötum í fyrsta leik á föstudaginn.