Fimm Selfyssingar eru í íslenska landsliðshópnum í handbolta sem mætir Svíþjóð í tveimur vináttulandsleikjum í lok október.
Bjarki Már Elísson, Lemgo, er í vinstra horninu og Teitur Örn Einarsson, Kristianstad í hægri skyttunni. Leikstjórnendur eru svo þeir Elvar Örn Jónsson, Skjern, Janus Daði Smárason, Álaborg og Haukur Þrastarson, Selfoss.
Sjötti Selfyssingurinn, Ómar Ingi Magnússon, Álaborg, á við smávægileg meiðsli að stríða og var því ekki valinn að þessu sinni.
Liðið hittist í Reykjavík og æfir þar 21.-23. október en fimmtudaginn 24. október heldur hópurinn til Svíþjóðar þar sem leiknir verða tveir vináttulandsleikir gegn heimamönnum. Fyrri leikurinn fer fram föstudaginn 25. október í Kristianstad og sá síðari sunnudaginn 27. október í Karlskrona.