Fimmtán Íslandsmeistaratitlar og eitt mótsmet á MÍ 15-22 ára

Hluti af keppnisliði HSK/Selfoss ásamt þjálfurum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Lið HSK/Selfoss varð í 3. sæti á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 15-22 ára innanhúss sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina. HSK/Selfoss fékk 238 stig eftir harða baráttu við Ungmennafélag Akureyrar um bronsið. ÍR sigraði á mótinu með 353,5 stig og FH varð í 2. sæti með 299 stig.

Í aldursflokkakeppninni varð HSK/Selfoss Íslandsmeistari í flokki 18-19 ára pilta eftir hörkukeppni við ÍR og í flokki 15 ára stúlkna þar sem HSK/Selfoss háði harða keppni við FH.

Adda Sóley og Anna Metta með sigurverðlaun fyrir 15 ára stúlknaflokk. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Anna Metta setti mótsmet og Íslandsmet
Anna Metta Óskarsdóttir náði frábærum árangri og varð sexfaldur Íslandsmeistari á mótinu. Í flokki 15 ára sigraði hún í þrístökki á nýju mótsmeti og aldursflokkameti þegar hún stökk 11,59 m og bætti eigið met um 13 sm. Stökkið er sömuleiðis bæting á hennar eigin héraðsmeti í þremur flokkum; 15 ára, 16-17 ára og 18-19 ára flokkum.

Anna Metta sigraði auk þess í langstökki, 2.000 m hlaupi, hástökki og stangarstökki. Þá var hún í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 m boðhlaupi í flokki 16-17 ára stúlkna á 1:51,63 mín. Tíminn er nýtt héraðsmet bæði í 16-17 ára og 18-19 ára flokkum en sveitin bætti þrettán ára gamalt met um 0,17 sekúndur. Með Önnu Mettu í sveitinni voru Arndís Eva Vigfúsdóttir, Hugrún Birna Hjaltadóttir og Helga Fjóla Erlendsdóttir.

Helga Fjóla var sömuleiðis sigursæl á mótinu en hún varð ferfaldur Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára stúlkna. Auk fyrrnefnds boðhlaups þá sigraði hún í 60 m grindahlaupi, hástökki og langstökki.

Sigursveit HSK/Selfoss fyrir miðju; Anna Metta, Helga Fjóla, Hugrún Birna og Arndís Eva. Ljósmynd/Ólafur Guðmundsson
Íslandsmeistarasveit 16-17 ára í boðhlaupi fyrir miðju; Ívar Ylur, Vésteinn, Kristján Kári og Hjálmar Vilhelm. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Piltasveitin meistari og Hjálmar setti HSK-met
Ívar Ylur Birkisson bætti HSK-metið í 60 m grindahlaupi í flokki 16-17 ára pilta þegar hann hljóp á 8,33 sek og bætti met Dags Fannars Einarssonar, Umf. Selfoss, um 0,13 sek. Ívar Ylur varð varð tvöfaldur Íslandsmeistari á mótinu en hann sigraði í hástökki og var í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 m boðhlaupi í 16-17 ára flokknum. Með honum í sveitinni voru Vésteinn Loftsson, Kristján Kári Ólafsson og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson.

Hjálmar Vilhelm bætti einu HSK-meti í safnið um helgina þegar hann varð í 2. sæti í kúluvarpi í flokki 16-17 ára pilta. Hann kastaði 15,62 m og bætti eigið met um 44 sm. Þetta er 5. besti árangurinn frá upphafi í afrekaskrá 16-17 ára pilta.

Þá unnu Sunnlendingar tvo Íslandsmeistaratitla í flokki 18-19 ára pilta. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, HSK/Selfoss, varð Íslandsmeistari í 800 m hlaupi en hann sigraði örugglega á tímanum 2:02,30 mín og Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, sigraði í þrístökki, stökk 12,68 m. Egill var eini keppandi Kötlu á mótinu og vann hann að auki bronsverðlaun í langstökki.

Hjálmar setti HSK-met í kúluvarpi. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson
Heimir Árni Erlendsson, Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Daníel Breki Elvarsson og Daníel Smári Björnsson með sigurlaunin fyrir stigakeppni 18-19 ára pilta. Á myndina vantar Artur Pardej. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson
Fyrri greinEinstakir listmunir innblásnir af náttúrunni
Næsta grein„Tónlistin hefur verið minn eldur“